Ég er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hef unnið við þjálfun síðan árið 2006. Bakgrunnur minn kemur úr dansi og eftir útskrift í HR byrjaði ég að starfa sem einkaþjálfari hjá World Class árið 2014 þar sem ég starfaði til haustsins 2022. Í dag þjálfa ég í aðstöðu styrktarþjálfunar Gróttu í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi og hjálpa einnig fólki að ná markmiðunum sínum í gegnum fjarþjálfun.
Ég brenn fyrir að hjálpa fólki að koma hreyfingu að í daglegu lífi, að hjálpa þeim að finna hvað þeim finnst skemmtilegt og læra á líkamann sinn svo það átti sig á því hvenær það þurfi að slaka aðeins á og hvenær það geti gefið aðeins í. Að það þurfi ekki alltaf að svitna í klukkutíma á hlaupabretti til þess að ná inn góðri hreyfingu. Að það þurfi ekki alltaf einu sinni að heita æfing til þess að hreyfa sig. Ég vil að prógramið mitt sé einskonar beinagrind fyrir fólk til að vinna með og gera að sínu, hvort sem það er að færa æfingar milli daga, aðlaga æfingarnar að sjálfri sér eða finna að þær vilji meira eða minna.
Þegar við lærum inn á líkamann okkar á þennan hátt og leyfum okkur að finna fyrir vellíðaninni sem fylgir hreyfingunni, áttum okkur á því hvað hreyfingin gerir fyrir líkamann okkar og andlegu hliðina án þess að vera að fókusa á þyngdartap, útlitið eða refsingu fyrir eitthvað sem við borðuðum, að þá eru okkur allir vegir færir og við mikið líklegri til þess að velja hreyfinguna fram yfir kyrrsetu og hlökkum til að koma hreyfingunni að á hverjum degi.
Ég var sjálf einu sinni föst í þeim vítahring að hreyfa mig alltof mikið til þess að reyna að líta út á einhvern ákveðin hátt sem líkaminn minn var aldrei að fara að ná á heilbrigðan hátt, keyra mig út á brettinu til þess að refsa mér fyrir hamborgarann og franskarnar sem ég borðaði kvöldið áður eða til að eiga inni fyrir einhverri máltíð. Ég var alltaf í einhverju átaki. Var alltaf að reyna að ná einhverri ákveðinni þyngd eða fituprósentu óháð því hvort ég var 20 ára eða nýbúin að eignast barn. Ég áttaði mig síðan á því að ég má líta út bara nákvæmlega eins og ég er í dag og vera ánægð með það. Ég þarf ekki að vera með blóðbragð í munninum á hverri einustu æfingu til þess að þóknast einhverjum samfélagslega samþykktum fegurðarstöðlum. Ég vildi mikið frekar hreyfa mig til þess að hafa gaman af því, finna fyrir aukinni vellíðan, sofa betur, verða sterkari, geta gengið á fjöll og hlaupið fyrir frelsistilfinninguna sem því fylgir. Þegar ég vil vera með blóðbragð í munninum þá er það því mig langaði bara svo mikið að reyna það mikið á mig þann daginn. Þvílíka uppljómunin og hugarfarsbreytingin. Núna píni ég mig aldrei á æfingar. Núna langar mig yfirleitt alltaf að hreyfa mig. Það koma einstaka dagar þar sem ég þarf virkilega að hafa fyrir því að koma mér af stað og stundum á þeim dögum þá sleppi ég hreyfingunni. En ég leita alltaf aftur í þessa vellíðan sem fylgir hreyfingunni og veit að mér líður betur þegar ég hreyfi mig heldur en þegar ég hreyfi mig ekki.
Það er ástæðan fyrir því að ég hreyfi mig í dag og mig langar að það sé frumástæða allra fyrir hreyfingu.